Ferill 777. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1468  —  777. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um gervigreind.


     1.      Hefur forseti Alþingis látið gera úttekt á því með hvaða hætti væri hægt að hagnýta gervigreind í lögbundnum verkefnum Alþingis, hjá skrifstofu Alþingis og stofnunum Alþingis, umboðsmanni Alþingis og Ríkisendurskoðun?
    Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, geta alþingismenn beint fyrirspurnum til forseta Alþingis á þingskjali og óskað skriflegs svars um stjórnsýslu á vegum þingsins. Svar forseta við fyrirspurn þingmannsins afmarkast af því að veita svör sem eiga við um stjórnsýslu Alþingis eins og hún er afmörkuð í 1. mgr. 91. gr. laga um þingsköp Alþingis en ekki um notkun gervigreindar í lögbundnum verkefnum Alþingis eða hjá stofnunum þingsins.
    Forseti hefur ekki látið gera úttekt á því með hvaða hætti hægt væri að hagnýta gervigreind hjá skrifstofu Alþingis. Þess ber þó að geta að framkvæmdastjórn skrifstofu Alþingis ákvað í febrúar 2024 að setja á fót vinnuhóp um gervigreind sem skipaður er þremur starfsmönnum skrifstofunnar. Hlutverk vinnuhópsins er að kortleggja tækifæri og áskoranir og gera drög að stefnu er lýtur að skrifstofu Alþingis. Vinnuhópurinn skal einnig gera tillögur að reglum um hvar megi sækja efni og hvaða efni gervigreind megi hafa aðgang að. Gert er ráð fyrir að vinnuhópurinn skili drögum að stefnu og stöðuskýrslu á vordögum.

     2.      Hvaða tækifæri eru í notkun gervigreindar á einstaka málefnasviðum hjá Alþingi, skrifstofu Alþingis og hjá stofnunum Alþingis?
    Vinnuhópurinn um gervigreind hefur á fundum sínum rætt um þau tækifæri sem felast í notkun gervigreindar í starfsemi skrifstofu Alþingis. Með því að nota gervigreind er væntanlega hægt að efla skilvirkni til muna og auka hagræðingu, til að mynda með sjálfvirknivæðingu í gagnaskráningu, öflun og greiningu á upplýsingum og ritun einfaldra skýrslna. Það mun gefa starfsfólki tækifæri til að einbeita sér í auknum mæli að verkefnum sem krefjast meiri sérfræðiþekkingar. Þetta myndi ekki einungis gagnast starfsfólki skrifstofu Alþingis heldur einnig þingmönnum og starfsfólki þingflokka við undirbúning þingmála. Þá væri hægt að nýta gervigreind til að bæta gæði lagasetningar, svo sem með því að tryggja að efni þingmála sé í samræmi við gildandi regluverk. Einnig leynast tækifæri í nýtingu gervigreindar við að bæta þjónustu við almenning, svo sem að svara algengum spurningum á vef Alþingis.
    Skrifstofa Alþingis tók talgreini í notkun haustið 2019 sem byggist á gervigreind og skrifar upp ræður þingmanna. Talgreinirinn byggist á sérhæfðu mállíkani sem smíðað var upp úr ræðusafni Alþingis og er endurnýjað reglulega með nýjum ræðum. Eins er hægt að bæta við orðum eftir þörfum ef þau koma ekki fyrir í mállíkaninu.

     3.      Hvaða áskoranir fylgja notkun gervigreindar á einstaka málefnasviðum hjá Alþingi, skrifstofu Alþingis og hjá stofnunum Alþingis?
    Helstu áskoranir sem fylgja notkun gervigreindar tengjast siðferðislegum og lagalegum álitaefnum sem og upplýsingaöryggi. Notkun gervigreindar í starfsemi skrifstofu Alþingis krefst skýrra viðmiða um siðferði, réttindi og friðhelgi einstaklinga, sérstaklega hvað varðar persónuvernd og gagnsæi. Mikilvægt er að tryggja að kerfi sem eru knúin af gervigreind séu ekki hlutdræg eða misnotuð í pólitískum eða persónulegum tilgangi en það myndi óhjákvæmilega hafa neikvæð áhrif á lýðræðið og lagasetningarferlið. Stöðugt þarf að huga að endurskoðun á gervigreindartækni og að uppfærslum á henni til að tryggja nákvæmni og áreiðanleika. Huga þarf sérstaklega að uppsetningu og aðgangsstýringu hvað varðar notkun gervigreindar á gögnum frá Alþingi sem og að öryggi gagna. Til að hægt sé að nýta gervigreind sem best þarf að þjálfa starfsfólk á skrifstofu Alþingis í notkun hennar. Hafa þarf í huga að gæði gagna verða aldrei meiri en þær upplýsingar sem gervigreindin býr yfir. Gagnrýnin hugsun þeirra sem vinna með gervigreind er ein af meginforsendum þess að hægt sé að hagnýta gervigreind í störfum skrifstofu Alþingis.